Isl Ens Nor
24.12 2010

Jólakveðja

Á þessu viðburðaríka ári er við hæfi að senda fréttaannál um áramót. Margt óvenjulegt hefur á daga okkar drifið sl. mánuði. Þar ber eldgosið í Eyjafjallajökli hæst. Það er okkur mikil lífsreynsla að lifa slíkar náttúruhamfarir og fá innsýn í heim forfeðranna, sem segir frá í gömlum annálum. Við hefðum ef til vill ekki trúað sumu nema að lifa það sjálf. Landið er enn í mótun, við búum á eldfjallaeyju og því þarf fátt að koma okkur á óvart.

Okkur er efst í huga þakklæti til allra þeirra sem studdu okkur, hugsuðu til okkar og komu í heimsókn. Hjálparsveitir, heilsugæsla, prestar og allir sjálfboðaliðarnir sem voru hér  hjálpuðu okkur að komast á réttan kjöl eftir þessar hörmungar og forðuðu okkur frá því að leggjast í depurð og vonleysi. Mestu skiptir að ekkert okkar hefur hlotið skaða af. Einhvern veginn sáum við alltaf ljósið framundan og einblíndum á það. Hér á Eyri er áfram gott að vera að undanteknum dögum inn á milli sem gera okkur lífið leitt vegna öskufjúks. Það er helst þegar frost er og þurrt og vindur stendur af jöklinum. Þá erum við að sýsla innan dyra og höfum alltaf næg verkefni.
 
Um svipað leyti og gosið hætti hófum við slátt, en með ólíkindum var hversu grasið gat sprottið upp úr öskunni. Fór svo að við gátum slegið hluta af túnum okkar tvisvar og náðum þeim heyforða sem við þurfum yfir veturinn. Við rannsókn á heyinu kemur í ljós að það inniheldur ekki skaðleg efni og er að mestu leyti laust við ösku og ryk. Korni var sáð í 15 ha. í stað 40 og var það einnig vel lukkað. Það er nú selt í auknum mæli til manneldis.
 
Fyrir stuttu síðan hófum við pressun á repjufræjum, en það er uppskera frá 2009. Tekið var á leigu húsnæði búnaðarfélagsins, sem staðsett er hér sunnan við veg og komið upp vélbúnaði til þess að vinna olíu úr fræjunum. Oíuframleiðslan á Eyri var ,,3 tunnur” í nóvember og stefnir í að þær verði einar 4 í desember. Olían hefur nú verið prófuð og notuð sem eldsneyti á gamlan Massey Ferguson og er ekki annað að finna en að honum þyki sopinn góður. Þá fellur einnig til hrat, sem er gott próteinfóður fyrir skepnur.
 
Nú í desember er verið að vinna að því að moka ösku upp úr uppistöðulóni Koltunguvirkjunar, en hún hefur staðið stopp frá fyrsta degi í gosi. Ekki er fyrir séð hvenær hægt verður að gangsetja hana, en það fer eftir því hversu mikill sandburður er í vatninu. Að öðru leyti ætti virkjunin að vera að mestu óskemmd. Heitavatnsæðin fór í sundur í flóðinu í byrjun gossins en það tókst að gera við hana og endurnýja. Hún var tekin í notkun aftur þann 10. maí.
 
Flóðgarðar voru endurbyggðir í sumar, alls 2,8 km, en Landgræðslan og Vegagerðin stóðu að því og í haustrigningunum sönnuðu þeir gildi sitt. Enn er þó vandamál kringum árnar, þar sem mikill framburður hefur hækkað farvegina.
 
Í  haust voru hér smiðir að lagfæra þök og þakrennur sem höfðu farið illa í gosinu. Þá hafa staðið yfir breytingar í fjósinu. Búið er að koma fyrir ,,mjaltaþjóni”, sem þessa daga er verið taka í notkun.
 
Ærnar okkar 10 sem fóru í sumarbúðir ásamt lömbunum sínum að Fornu-Söndum undir V-Eyjafjöllum, eru komnar heim og una sér hið besta í grænu túninu heima.
 
Í sumar var okkur boðin afleysingaþjónusta til þess að við gætum farið í frí og ákváðum við að fara 10 daga ferð til Noregs. Við buðum með okkur dóttursonunum Almari Óla og Engilbert Þóri. Ferðin heppnaðist vel, gaman að komast aðeins frá og heimsækja ættingja og vini í Noregi.
 
Við óskum ykkur öllum gleðilegra jóla og gæfuríks nýs árs. Þökkum hlýhug á árinu sem er að líða. Lifið heil.
 
 
Guðný og Ólafur.