Saga Þorvaldseyrar
Þorvaldur Bjarnarson, Núpakoti, komst yfir jörðina Svaðbæli, lítið og blautlent kot, reisti sér býli á grundunum þar fyrir ofan og nefndi það Þorvaldseyri. Reisti hann þar torfbæ og síðar hlöðu mikla sem hann hafði einni alin lengri og breiðari en Menntaskólahúsið í Reykjavík sem þá var stærsta bygging á Íslandi.
Þorvaldur Bjarnarson seldi Bjarna Jónssyni, trésmíðameistara í Reykjavík, Þorvaldseyrina í skiptum fyrir stórhýsið Bjarnaborg við Hverfisgötu.
Einar Benediktsson skáld, var sýslumaður í Rangárvallasýslu á árunum 1904-07. Hann bjó á Stóra-Hofi við mikla rausn. Nokkru eftir að Bjarni Jónsson eignaðist Þorvaldseyrina keypti Einar sýslumaður jörðina af honum. Lét hann taka ofan feikna stórt timburhús (gestahús) sem Þorvaldur Bjarnarson hafði reist nokkru áður og flytja að Stóra-Hofi. Um jörð sína, Þorvaldseyri, skeytti Einar sýslumaður ekki að öðru leyti og lá hún í eyði og óhirðu árin 1905-06.
Ólafur Pálsson bjó ásamt foreldrum sínum í Svínhaga á Rangárvöllum. Hann var atgerfismaður, mikill vexti, sterkur og kappsamur til vinnu. Á útmánuðum 1906 kom Grímur Thorarensen, hreppstjóri í Kirkjubæ, að Svínhaga. Barst þá í tal hversu illa væri farið með þá góðu jörð Þorvaldseyri. Segir þá Grímur við Ólaf: ,,Þú ættir að slá þér á hana. Það væri dálítið fyrir þig að glíma við.” Skömmu eftir þetta bar fundum Ólafs í Svínhaga og Einars sýslumanns saman. Kom þá fram að Þorvaldseyrin væri föl. Fór svo að Ólafur keypti jörðina af Einari sýslumanni á 9.000 krónur og var það hærra jarðarverð en áður hafði heyrst.
Af búskaparsögu Ólafs Pálssonar 1906-1949
Ólafur Pálsson fluttist að Þorvaldseyri vorið 1906 og kvæntist um sömu mundir Sigríði Ólafsdóttur frá Lágafelli í A-Landeyjum. Aðkoman að jörðinni var ekki sem best, hús voru illa farin og Svaðbælisá hafði flætt mjög yfir tún og haga og borið fram sand og grjót til stórskemmda. Ólafur réðst í að endurbæta húsakost og hlaða varnargarða við ána. Var það bæði mikið og seinunnið verk. Eftir að samgöngur bötnuðu og mjólkursala hófst fjölgaði Ólafur kúnum. Reisti hann þá 24 kúa fjós sem þótti stórt á þeirri tíð. Segja má að búskapur Ólafs og Sigríðar blessaðist einstaklega vel fyrir dugnað þeirra og hagsýni. Ólafur hlaut heiðursverðlaun úr sjóði Kristjáns konungs IX fyrir afrek sín í búskapnum. Einnig sléttaði hann tún og engjar svo að nota mætti vélar sem mest. Árið 1918 reisti hann nýtt íbúðarhús sem stendur enn. Ólafur og Sigríður eignuðust fjögur börn og Eggert sonur þeirra tók við búsforráðum árið 1949.
Eitt með öðru í framkvæmdum Ólafs var að hann reisti vatnsaflsrafstöð fyrir bæ sinn. Veitti hann þá saman nokkrum lækjum inni í heiði og setti upp stöðvarhús í tveggja kílómetra fjarlægð frá bænum. Stöðina smíðaði hann að mestu leyti sjálfur, skilaði hún 11 kw orku og gekk í 50 ár með nokkrum endurbótum.
Af búskaparsögu Eggerts Ólafssonar 1949-1986
Eggert Ólafsson var fæddur árið 1913. Hann kvæntist Ingibjörgu Nyhagen frá Volbu í Noregi og eignuðust þau fjögur börn. Bústofninn á Þorvaldseyri jókst jafnt og þétt og því var ráðist í að reisa 200 kinda fjárhús, nýja hlöðu, fjósið var stækkað og síðar byggð verkfærageymsla. Með vélvæðingu eftirstríðsáranna hóf Eggert stórfellda framræslu á blautum mýrum og síðar ræktun.
Fyrir áhrif frá hugsjóna- og atorkumanninum Klemenz Kristjánssyni á Sámsstöðum tók kornrækt að breiðast út í Rangárþingi og víðar. Eggert hóf kornyrkju í smáum stíl þegar upp úr 1950 og gekk það nokkuð vel. Hann beitti sér fyrir stofnun kornræktarfélags undir Eyjafjöllum sem starfaði í allmörg ár og hóf félagsræktun á korni á Skógasandi. Bygg hefur verið ræktað samfellt á Þorvaldseyri frá árinu 1960.
Félagsstörf Eggerts Ólafssonar
Eggert Ólafsson vann einnig að öðrum félagsmálum. Hann gengdi formennsku í Nautgriparækarsambandi Rangárvalla- og V-Skaftafellssýslu, var formaður Ræktunarsambands Eyfellinga og Mýrdælinga. Hann sat í stjórn Búnaðarsambands Suðurlands í 30 ár, í stjórn Mjólkurbús Flóamanna í 42 ár (þar af stjórnarformaður í 17 ár) í stjórn Mjólkursamsölunnar var hann í 12 ár og sat þrjú Búnaðarþing sem varamaður.
Búskaparsaga Ólafs Eggertssonar frá 1973
Ólafur, sonur Eggerts, lauk námi við Bændaskólann á Hvanneyri 1973 og gekk í félagsbú með föður sínum. Hann kvæntist Guðnýju A. Valberg og eiga þau fjögur börn. Á árunum 1976-1980 var byggt nýtt íbúðarhús, nýtt 84 kúa fjós ásamt votheysturnum og vélageymslu. Árið 1986 tók Ólafur alfarið við búrekstrinum. Hann hefur viðhaldið endurræktun túna og aukið við kornræktina. Auk þess tekið upp ýmsar tækninýjungar s.s. jarðvinnslutæki, kornþreskivél, kornþurrkara, fóðurblöndun, sjálfvirkan votheyslosunarbúnað, tölvustýrðan mjaltabúnað og kálfafóstru.
Samband sunnlenskra kvenna veitti Guðnýju verðlaun fyrir einn af fegurstu skrúðgörðum í dreifbýli í Rangárvallasýslu.
Borun eftir heitu vatni 1989
Meðal nýjunga sem Ólafur Eggertsson hefur beitt sér fyrir var að hefja leit að heitu vatni í landareigninni. Þrátt fyrir að vísindamenn teldu litlar sem engar líkur á að heitt vatn fyndist í landareigninni var samt hafin tilraunaborun á eigin kostnað og áhættu. Borað var í svokölluðu Koltungugili 2 km upp af bænum, rétt við gömlu rafstöðina. Jarðboranir hf. önnuðust verkið og stóð borun yfir í 6 vikur. Borað var niður á 1000 metra dýpi. Þar var hitinn 116 °C. Upp úr holunni kom 1 sekúndulíter af 65 stiga sjálfrennandi heitu vatni. Ári síðar var lögð 2 km einangruð lögn frá holunni og heim að bæ. Nú eru íbúðarhús hituð upp með vatninu og rennandi heitt vatn er í öllum útihúsum auk þess sem vatnið er notað til súgþurrkunar á heyi og þurrkunar á korni.
Samband sunnlenskra kvenna veitti Guðnýju viðurkenningu fyrir matjurtaræktun.
Landbúnaðarráðherra veitti Guðnýju og Ólafi viðurkenningu fyrir árangursrík störf í þágu íslensks landbúnaðar.
Nýr tölvustýrður mjaltabás með 14 mjaltatækjum var tekinn í notkun. Bústofn í fjósi var 65 mjólkandi kýr ásamt 130 geldneytum og ungkálfum. Mjólkurkvóti búsins var 225.535 lítrar. Ársframleiðsla á nautakjöti ca. 10 tonn. Jörðin Þorvaldseyri er alls 230 ha. að flatlendi auk heiðarlands. Ræktað land er um 100 ha. og kornræktarland 25 ha.
Koltunguvirkjun gerð upp og lagður 2 km jarðstrengur frá henni og heim að bæ. Virkjunin framleiðir 16kw og sér búinu fyrir öllu rafmagni. Umfram orka er seld á raforkukerfi RARIK.
Ólafur kjörnin oddviti Rangárþings Eystra.
Ólafur Pálsson keypti jörðina 1906 og niðjar hans hafa búið þar síðan. Í tilefni af því var haldið upp á 100 ára búsetuafmæli. Í kjölfar afnáms óðalslaga var rekstrarformi búsins breytt í einkahlutafélagið Eyrarbúið ehf. Mjólkurkvótinn var um 300.000 lítrar og sjálfvirku fóðurkerfi komið upp í fjósi.
Eyrarbúið tók þátt í sýningu við Hrafnagilsskóla ,,Uppskera og handverk” þar sem kornþema var í fyrirrúmi.
Kornax ehf. og Eyrarbúið ehf. gerðu með sér samkomulag um dreifingu, sölu og markaðssetningu á heilhveiti og byggmjöli frá Þorvaldseyri. Eyrarbúið var með kynningu á hveiti og byggi á Landbúnaðarsýningunni á Hellu. Veitt viðurkenning Landsambands kúabænda. Tilraunir hófust með ræktun á repju til olíuframleiðslu.
Dreifing á heilhveiti og byggmjöli hófst, Kornax og Eyrarbúið stóðu fyrir kynningum á brauði bökuðu úr íslensku heilhveiti og byggi. Eyrarbúið tilnefnt til Fjöreggs MNÍ. Vaxtarsamningur Suðurlands og Vestmannaeyja veitti verkefninu ,,Framleiðsla og matarolía úr repju” stuðning. Eyrarbúið hlýtur styrk úr Orkusjóði fyrir framleiðslu repjuolíu til eldsneytis. Ólafur Eggertsson var sæmdur hinni Íslensku Fálkaorðu fyrir nýsköpun í landbúnaði.
Eldgos hófst á Fimmvörðuhálsi 21. mars og 14. apríl hófst gos í Eyjafjallajökli. Flóð varð í Svaðbælisá fyrir ofan bæinn og varnargarðarnir eru mjög laskaðir. Hitaveitulögnin fór í sundur svo að heitavatnslaust var á bænum í rúmar 4 vikur. Mikil aska féll 16. og 17. apríl, enn er unnið að hreinsunarstörfum.
11. maí hlaut Ólafur viðurkenninguna Orkubóndinn 2010 fyrir frumkvöðlastörf.
23. maí er eldgosið hætt, allavega um stundarsakir.